6.10.2007 | 16:55
Opið bréf til auðmanna íslands og annarra sem eru aflögufærir.
Fjölskylduhjálp Íslands er að hefja sitt fimmta starfsár um þessar mundir og þörfin aldrei meiri við að aðstoða konur, börn og karla í neyð. Við treystum á fyrirtæki og almenning með fjármagn, fatnað og matvæli. Við erum með 1500 fjölskyldur á skrá óháð búsetu. Peningar eru af skornum skammti og því þarf að gæta vel að kaupa þau matvæli sem hagstæðast er að kaupa hverju sinni.
Frá upphafi hafa eftirtaldir aðilar og fyrirtæki styrkt starfið í formi matvæla og fl.Ólafur Jóhann Ólafsson rithöfundur, Helgi S. Guðmundsson, Frónkex, Myllan-Brauð, Mjólkursamsalan, Dreifing, Ömmubakstur, Lýsi, Nesbúegg, Sölufélag garðyrkjumanna, Bakarameistarinn, Osta og Smjörsalan, Mjólka,Papco, Plastprent, Emmessís, Góa-Linda og Selecta.
Það er mikilvægt að geta úthlutað nýjum fiski, kjúklingum, góðu kjöti og miklu úrvali af grænmeti. Þess í stað erum við að úthluta kjötfarsi og hrossabjúgum sem er það ódýrasta sem völ er á því við erum að úthluta til yfir 100 fjölskyldna á hverjum miðvikudegi.
Það eru um 250 einstaklingar með börnunum sem hvern miðvikudag treysta á matarúthlutun hjá Fjölskylduhjálp Íslands. En við verðum að sníða okkar stakk eftir vexti.
Við biðlum til auðmanna og annarra á Íslandi um að styðja við bak starfsins með fjárframlögum en þeir hinir sömu munu fá ársreikning þar sem fram kemur hvaða matvæli við keyptum og frá hverjum. Þar kemur líka í ljós að hver einasta króna fer til að hjálpa fátæku fólki á Íslandi. Allt starf er unnið í sjálfboðastarfi. Það er mjög átakanlegt hversu margir skjólstæðingar okkar hafa ekki efni á að nota okkar góða heilbrigðiskerfi. Margir geta ekki leyft sér að nota tannlæknaþjónustu, hvað þá að leysa út lyfin sín eða láta snyrta hár sitt.
Hér er nýleg dæmisaga og ekki sú eina: Ung fimm barna móðir leita til okkar sökum mikillar fátæktar, hún er öryrki, býr með fimm börnum sínum í sumarbústað. Þegar hún kom til okkar síðasta miðvikudag var hún illa haldin því hún hafði ekki haft efni á leysa út geðlyfin sín í langan tíma og geðeinkennin því komin vel í ljós. Það var mjög sorglegt að horfa upp á þessa ungu konu sem var svo illa haldin að það stakk mann beint í hjarta stað. Þessa konu vantaði allt. Við hjálpuðum henni að leysa út geðlyfin sem kostuðu 1.200 krónur sem ekki er há upphæð, létum hana hafa peninga fyrir bensíni á bílinn svo hún kæmist til okkar aftur eftir tvær vikur því hún þarf að fara um langan veg til að koma til okkar. Þá létum við hana hafa mikið magn af matvælum fyrir hennar stóru fjölskyldu og síðast enn ekki síst fékk hún hlýjan fatnað, þykkar og góðar sængur og mörg teppi svo þeim yrði ekki eins kalt í sumarbústaðnum í vetur. Þessi kona hefur ekki getað leyft sér að nýta þjónustu tannlækna hvað þá aðra þjónustu innan okkar góða heilbrigðiskerfis.
Kæru auðmenn og aðrir íslendingar hjálpið okkur við að hjálpa þeim fjölmörgu fátæku fjölskyldum sem til okkar leita. Bankareikningar eru 101-26-66090 og 546-26-6609. kt 660903-2590.
Með fyrirfram þakklæti.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:55 | Facebook
Um bloggið
Samfélagið og við
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (1.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það er hræðilegt að hugsa um forgangsröðunina í þessu þjóðfélagi okkar. Vonandi láta auðmennirnir eitthvað af hendi rakna til góðgerðarmála. Þessir gaurar með margar milljónir á mánuði, þeir ættu að kynnast gleðinni af því að gefa.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.10.2007 kl. 20:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.