Önnur heimsóknin

Þess má geta að heimsóknin til þingmanns reykvíkinga er önnur ferðin sem LKF fer í, því í sumar fór Landssambandið í heimsókn til þingmanns Frjálslynda flokksins á Suðurnesjunum.  Þá tók Grétar Mar Jónsson þingmaður höfðinglega á móti konum úr Landssambandinu kynnti þeim Suðurnesin en ferðin stóð frá kl. 13.00 til 22.00 í Vitanum þar sem 70 konur þáðu dásamlegan kvöldverð.  Ferðin til Suðurnesja var ógleymanleg.

Þá mun Landssambandið heimsækja vestfirðina við tækifæri og heimsækja Guðjón Arnar og Kristinn H.


Helgarhátíð Landssambands kvenna í Frjálslynda flokknum

Héldum fund á Grand Hótel föstudagskvöldið s.l.   Fullur salur af góðu fólki.   Fórum í kynnisferð til Hellisheiðarvirkjun í gær laugardag, en tilefnið var heimsókn til þingmanns reykvíkinga hjá Frjálslynda flokknum.  Jón Magnússon þingmaður tók vel á móti okkur konunum.  Enduðum daginn í nýju félagsheimili Frjálslynda flokksins að Skúlatúni 4. Þangað mætti fjöldi manns m.a. Guðjón Arnar formaður og kona hans Barbara auk þess var Magnús Reynir framkvæmdastjóri flokksins með okkur í ferðinni um daginn og nutum við samvistar við hann til loka hátíðarinnar.  Lauk hátíðinni um kl. 19.00.

Í ekki okurlandi

Síðustu daga hef ég verið í Köben, alltaf  yndisleg heim að sækja.  Hef komið til Köben af og til frá 1975 og var hér um tíma í námi.   Hér er hægt að versla í öllum verðflokkum og því þarf engin að líða skort.  Að fara í Netto, Irma, Fakta og hvað allir þessir markaðir heita er frábært. Vöruverð þau sem við á klakanum munum ekki sjá í næstu framtíð, því  að á Íslandi fær okrið að blómstra á öllum sviðum. Samt gekk ég fram hjá húsi hér í Köben í gærkveldi þar sem í glugganum stóð nodhjælp. Hverjir skyldu nú þurfa á þeirri aðstoð að halda?  

Í Köben er fólk af öllum þjóðarbrotum og er litað fólk og aðrir útlendingar ansi áberandi. Sá á netinu í gærkveldi að Þjóðarflokkurinn í Sviss væri að uppskera aukið fylgi vegna stefnu hans í útlendingamálum. Svisslendingar eru búnir að fá upp í kok af útlendingum sem misnota velferðarkerfið, ræna öllu og ruppla.  Þeir eru glæpamenn að mati Þjóðarflokksins þar í landi.

 Svisslendingar eru nú alfarið á móti því að ganga í Evrópusambandið.  Þjóðin er 7.5 miljónir og þar af eru 1.5 miljón manna útlendingar eða um 20% þjóðarinnar.

 Hvað megum við íslendingar ( okkar viðkvæmi kynstofn) segja því nú eru um 10% þjóðarinnar útlendingar sem við vitum um en í raun vitum við ekki hversu margir útlendingar eru í landinu.  Þvílíkt eftirlit.

 NEI þeir sem vöruðu við óheftum straumi útlendinga til landsins fyrir síðustu kosningar voru kallaðir rasistar sem segir heilmikið um á hvaða plani íslendingar eru, svolítið óþroskaðir á alheimsvísu. Allt það sem kom fram í máli Frjálslynda flokksins fyrir síðustu kosningar er hárrétt. 

 Við vorum ekki tilbúin fyrir allan þennan fjölda útlendinga sem nú er kominn til landsins. Margir hafa ekki aðgang að heilbrigðisþjónustu, hafa ekki vinnu eða eru í þrælavinnu og búa jafnvel í gluggalausum  geymslum. Staðreyndirnar liggja fyrir í dag, en nei menn vilja ekki viðurkenna vandann, heldur berja þeir áfram hausnum við steininn þar til vandamálið er orðið svo stórt að ekki verður við ráðið.  Hverjum er þá að kenna?  Ekki okkur segja ráðamenn þjóðarinnar, þetta varð bara svona.  Eins fór með fiskkvótann og kannski fer svona líka með jarðorkuna okkar.  Flestar stofnanir sem eiga að sjá um innflytjendamálin  eru með allt niður um sig en samt þrjóskast þjóðin við.

Þegar maður er fjarri heimahögunum sér maður oftar enn ekki hlutina í miklu skýrara ljósi i.e. óheftur aðgangur útlendinga til landsins, hversu gífurlegt vandamál  þetta getur orðið.  Margir ráðamenn okkar ættu að vinna erlendis í 6 mánuði í almennri vinnu,( ekki í vernduðu umhverfi), til að þeir átti sig á vandamálinu  og að hægt sé að koma vitinu fyrir þá.

Hvað er okkar fámenna þjóð að hugsa að hleypa öllu þessu fólki inn í landið okkar?  Alþjóðahúsið við Hverfisgötu hefur atvinnuhagsmuni að gæta og því má aldrei hallmæli útlendingum í þeirra eyra.

Við erum viðkvæm þjóð í stóru landi,  aðeins rúmlega 300.000 hræður og því verðum við að hafa vaðið fyrir neðan okkur í þessu máli.

Med venlig hilsen fra Koben,


Skortir íslenska karlmenn kjark?

Sælir sambloggarar, var að velta því fyrir mér hvort íslenskir karlmenn væru kjarklitlir.  Var að enda þátt minn á Útvarpi Sögur  FM 99.4 en þar er ég með þætti alla fimmtudaga frá 16 til 18, laugardaga frá 13 til 14 og á sunnudögum frá 13 til  14.  Þáttur minn á laugardögum gefur þeim fjölmörgu sem eru einhleypir ( 40% hjónabanda enda með skilnaði) að hringja inn og setja nafn sitt á lista yfir þá karlmenn / konur sem hafa áhuga á að fara með karlmanni/ konu á svipuðum aldri út að borða og eiga yndislega kvöldstund saman.  Í dag var boðið upp á fimm rétta stjörnu kvöldverð  (Stolt matreiðslumeistarans) á Einari Ben þeim glæsistað og meira að segja var allt borðvín innifalið, þ.e. sérvalið vín með hverjum rétti.  Viti menn konurnar létu ekki á sér standa en annað mál var með karlmennina okkar sem þorðu ekki fyrir sitt litla líf að hringja inn.   Eftir þáttinn fékk ég fjölda símtala frá karlmönnum sem vildu fara út að borða, en að hringja í beina útsendingu það var allt annað mál.  Hvað er að þessum elskum?  Ég spyr þann sem e-h veit um málið.  Eru okkur yndislegu karlmenn svona bældir og ef svo er, hverju er um að kenna?

kkv.

Ásgerður Jóna

 


Opið bréf til auðmanna íslands og annarra sem eru aflögufærir.

     Fjölskylduhjálp Íslands er að hefja sitt fimmta starfsár um þessar mundir og þörfin aldrei meiri við að aðstoða konur, börn og karla í neyð. Við treystum á fyrirtæki og  almenning með fjármagn, fatnað og matvæli.  Við erum með 1500 fjölskyldur á skrá óháð búsetu.  Peningar eru af skornum skammti og því þarf að gæta vel að kaupa þau matvæli sem hagstæðast er að kaupa hverju sinni.

   Frá upphafi hafa eftirtaldir aðilar og fyrirtæki styrkt starfið í formi matvæla og fl.Ólafur Jóhann Ólafsson rithöfundur, Helgi S. Guðmundsson, Frónkex, Myllan-Brauð, Mjólkursamsalan, Dreifing, Ömmubakstur, Lýsi, Nesbúegg, Sölufélag garðyrkjumanna, Bakarameistarinn, Osta og Smjörsalan, Mjólka,Papco, Plastprent, Emmessís, Góa-Linda og Selecta. 

     Það er mikilvægt að geta úthlutað nýjum fiski, kjúklingum, góðu kjöti og miklu úrvali af grænmeti.  Þess í stað erum við að úthluta kjötfarsi  og hrossabjúgum sem er það ódýrasta sem völ er á því við erum að úthluta til  yfir 100 fjölskyldna á hverjum miðvikudegi. 

     Það eru um 250 einstaklingar með börnunum sem hvern miðvikudag  treysta á matarúthlutun hjá Fjölskylduhjálp Íslands.  En við verðum að sníða okkar stakk eftir vexti. 

     Við biðlum til auðmanna og annarra á Íslandi um að styðja við bak starfsins með fjárframlögum en þeir hinir sömu  munu fá ársreikning  þar sem fram kemur hvaða matvæli við keyptum og frá hverjum.  Þar kemur líka í ljós að hver einasta króna fer til að hjálpa fátæku fólki á Íslandi.  Allt starf er unnið í sjálfboðastarfi. Það er mjög átakanlegt hversu margir skjólstæðingar okkar hafa ekki efni á að nota okkar góða heilbrigðiskerfi.  Margir geta ekki leyft sér að nota tannlæknaþjónustu, hvað þá að leysa út lyfin sín eða láta snyrta hár sitt.

    Hér er nýleg dæmisaga og ekki sú eina:  Ung fimm barna móðir leita til okkar sökum mikillar fátæktar, hún er öryrki, býr með fimm börnum sínum í sumarbústað.  Þegar hún kom til okkar síðasta miðvikudag var hún illa haldin því hún hafði ekki haft efni á leysa út geðlyfin sín í langan tíma og geðeinkennin því komin vel í ljós.  Það var mjög sorglegt að horfa upp á þessa ungu konu sem var svo illa haldin að það stakk mann beint í hjarta stað.  Þessa konu vantaði allt.  Við hjálpuðum henni að leysa út geðlyfin sem kostuðu 1.200 krónur sem ekki er há upphæð, létum hana hafa peninga fyrir bensíni á bílinn svo hún kæmist til okkar aftur eftir tvær vikur því hún þarf að fara um langan veg til að koma til okkar.  Þá létum við hana hafa mikið magn af matvælum fyrir hennar stóru fjölskyldu og síðast enn ekki síst fékk hún hlýjan fatnað, þykkar og góðar sængur og mörg teppi svo þeim yrði ekki eins kalt í sumarbústaðnum í vetur.  Þessi kona hefur ekki getað leyft sér að nýta þjónustu tannlækna hvað þá aðra þjónustu innan okkar góða heilbrigðiskerfis. 

   Kæru auðmenn og aðrir íslendingar hjálpið okkur við að hjálpa þeim fjölmörgu fátæku fjölskyldum sem til okkar leita.  Bankareikningar eru 101-26-66090 og 546-26-6609. kt  660903-2590. 

Með fyrirfram þakklæti.   


Amma í gifsi.

Ég eins og aðrar ömmur fá barnabörnin í reglulega í  heimsókn og í dag kemur til mín eina ömmubarnið mitt yndislegur ömmuprins sem er 3ja og hálfs árs gamall, mikill glókollur og ætlar að gista hjá ömmu og afa í nótt.  Vandamálið er að amman verður ein  með prinsinum í dag og í kvöld en amman er fótbrotin með gifsi á vinstri fæti.  Hvað er þá til ráða því ekki fer ég með hann út á róló.  Ég  les fyrir hann, föndra með honum, fer í bílaleik.  Eitt er víst að hann vill elda kvöldmatinn með ömmu sinni og vaska upp á eftir og er þá oft handagangur í öskjunni.  Þið getið séð það í anda þegar glókollurinn 3ja og hálfs árs tekur til starfa í eldhúsinu.  Málið verður örlítið flóknara vegna aðstæðna. En þetta mun ganga allt vel, bara örlítið í hægagangi .

Með kærri kveðju,

Ásgerður Jóna


Flateyri í sárum.

Ég sit enn og aftur gáttuð  yfir því sem á sér stað í okkar litla landi Íslandi.  Hvernig getur þjóðn setið hjá varðandi þá atburði sem eiga sér nú stað á Flateyri?  Erum við öll orðin dofin fyrir þessu.  Nú eigum við að gera þá kröfu á hendur eigenda Kambs á Flateyri að þeir gefi upp hver skuldastaðan hjá þeim er í dag og hvert total söluverð verður.  Það er ekki hægt að líða það að menn fari með þjóðarauðinn í vasanum og skilji heillt byggðarlag á sárum.  Það á ekki að eiga sér stað að þeir fari með þúsundir milljóna í vasanum og fari síðan í greifaleik.  Nei takk.  Ég gæti sætt mig við að þeir fengju þokkalega fjárupphæð sem dygði þeim til dauðadags en ekki krónu meira.  Mest allur söluhagnaðurinn á að renna til Flateyrar. Þegar upplýst verður hverjar skuldirnar eru væri athyglisvert að vita í hvað fóru þessir fjármunir. Við eigum nú að safnast saman niður á Austurvöll og mótmæla þessum gjörningi því það er þjóðin sem á fiskinn í sjónum ,því megum við aldrei gleyma.  Þeir sem komu kvótakerfinu á hljóta að fá sting í hjartastað vegna gjörða sinna.


Fátækir þurfa samhjálp. Við tökum á móti fatnaði nýjum og notuðum.

Jæja þá er fimmtudagurinn  12. april runninn upp. Dagurinn frekar blautur sem ég upplifði svo vel  er ég fór út að labba með mitt yndislega barnabarn sem er tæplega þriggja ára  prins og heitir Jóhannes Flosi. Við ömmurnar og afarnir í þjóðfélaginu hlaupum undir bagga þegar frí er á leikskólum þessa lands.  Hvað er yndilegara enn að vera úti á labbinu með slíkum draumaprinsi sem virðir fyrir sér hvern stein sem á vegi hans verður.

En nú í allt önnur mál.  Við hjá Fjölskylduhjálp Íslands höfum verið í Kolaportinu síðustu tvær helgar við að selja ný og notuð föt, leikföng og skófatnað.  Hefur salan gengið vel.  Það sem inn kemur er sett í lyfjasjóð sem verður notaður til að hjálpa þeim sem eru í neyð og geta ekki leyst út sín nauðsynlegu lyf. 

Og ekki slökum við á því um næstu helgi verðum við líka í Kolaportinu og ætlum okkur að selja grimmt.  Nú biðla ég til þeirra sem lesa þetta blogg að fara nú í skápana sína og taka virkilega til og láta okkur njóta þess.  Allir geta komið með fatnað, leikföng og fl. til okkar í kolaportið helst f.h. á laugardagsmorgun og færa okkur fatnað og fl. sem við getum síðan selt en það fjármagn sem kemur inn um næstu helgi verður notað til að greiða húsaleigu til Reykjavíkurborgar sem á húsnæðið sem við erum með starfsemina í að Eskihlíð 2-4.

Hjá Fjölskylduhjálpinni var mikið að gera í gær miðvikudag sem er úhlutunardagur hjá okkur.  Ég gat því miður ekki verið við úthlutun þann dag því ég var í myndatökum og fleiru með félögum mínum í Frjálslynda flokknum því nú er kosningabaráttan að skella á með vinnustaðafundum og fl.


Matarúthlutun til fátækra og fundur hjá KRFÍ

Þá er komið að fyrsta blogginu mínu og þó fyrr hefði verið.  Í dag miðvikudag eins og alla aðra miðvikudaga s.l. 11 ár hef ég verið við matarúthlutun til þeirra sem minna mega sín.  Staðsetning er að Eskihlíð 2 - 4  hjá Fjölskylduhjálp Íslands og klukkan er 13.00 og skjólstæðingar byrjaðir að bíða þó úthlutun hefjist  ekki fyrr enn klukkan 15.00.  Úti er gluggaveður og kuldahrollur fer um skjólstæðinga okkar sem eru af öllum stærðum og á öllum aldri konur, karlar og börn sem ætla sér að bíða næstu tvo klukkutímanna til að missa ekki af páskaúthlutuninni.  Í röðinni eru öryrkjar, geðfatlaðir, forsjárlausir feður og mæður, einstæð foreldri, eldri borgarar, lágtekjufólk og  einstæðingar.

Innan dyra eru allir á fullu við að gera klárt fyrir opnunina en bakvinna er mjög mikil fyrir opun en þegar klukkuna vantar 15 mínútur í þrjú kemur í ljós að seinkun verður á að páskakjötið komist í hús.  Það veldur því að við verðum að bíða eftir kjötinu því ekki getum við byrjað úthlutunina fyrr en kjötið er komið í hús.  Þetta kemur illa við skjólstæðinga okkar sem margir hafa beðið frá klukkan 13.00.   Það sem við úthlutum í dag til hverrar fjölskykldu er eftirfarandi:  Svínakjöt og saltkjötsfars sem keypt er frá Norðlenska á Akureyri, eitt kíló af frystum fiski frá Norðanfiski á Akranesi sem við kaupum auk þess sem við úthlutum einum pakka af kaffi, lettmjólk, fjörmjólk og nýmjólk sem við kaupum líka.  Þá úthlutum við vörum sem við fáum vikulega gefins sem eru glæný brauð frá Myllunni, flatkökur frá Ömmubakstri, páskaeggjum frá Helga Í Góu, eggjum frá Nesbúegg, jógúrt vörum frá MS, vörum frá Osta og smjörsölunni, djús, kartöflum frá Karli kartöflubónda, grænmeti frá Sölufélaginu, hreinlætisvörum frá Papco, kexi frá Frón og svona get ég áfram talið. Við úthlutuðum um einu og hálfu tonni af matvöru í dag.  Við afgreiddum 110 fjölskyldur en þurftum því miður að vísa frá 40 fjölskyldum þar sem klukkan var að verða 17.00 og við að loka.  Skjólstæðingar tóku þessu misvel eins og gefur að skilja en þeir  munu sitja fyrir næsta miðvikudag þegar seinni úthlutunin fer fram fyrir páskana.  Þegar klukkan var orðin 18.00 var hjálparfólkið orðið ansi þreytt eftir erfið dagsins en hamingjusamt í hjarta sínu. 

 Á sama tíma var flóamarkaðurinn okkar opin þar sem Bryndís Schram verndarinn okkar og aðrar hjálparkonur stóðu vaktina þar sem fólk getur verslað  hitt og þetta og fer ágóðinn í lyfjasjóð sem notaður er til að hjálpa fólki að leysa út lyfin sín.  Þá úthlutar Fjölskylduhjálp Íslands vikulega fatnaði á fullorðna og börn, leikföngum og eldhúsáhöldum.  Á morgun fimmtudag byrjum við að afla matvara fyrir næsta miðvikudag því við búumst við miklum fjölda þann dag.

 

Ég mætti í pallborðsumræður hjá KRFÍ kl. 12.00 miðvikudaginn 28.mars fyrir hönd Frjálslynda flokksins en ég skipa 2 sætið í Reykjavíkurkjördæmi norður.  Fulltrúar frá öllum flokkum voru mættir til að ræða jafnréttismál sinna flokka og hvert stefnir.  Það var áhugavert að hlusta á fulltrúa flokkanna og taka þátt í umræðunni.  Það kom svo sem ekkert nýtt fram á fundinum en þetta með launamun kynjana var málefni sem allir ætluðu að taka á ef þeir kæmust til valda.  Launamunur kynjanna er alveg furðulegur hér á landi og svo virðist að hið opinbera hafi ekki áhuga á að taka á þessu jafnréttismáli, öll umræða sé í orði en ekki á borði.


Fyrsta bloggfærsla

Þessi færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.

« Fyrri síða

Um bloggið

Samfélagið og við

Höfundur

Ásgerður Jóna Flosadóttir
Ásgerður Jóna Flosadóttir

          MBA viðskiptafræði, BA stjórnmálafræði og fjölmiðlafræði.  Er starfandi formaður Fjölskylduhjálpar Ísland

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Fjölsk mars 2008 008
  • Fjölsk mars 2008 005
  • PhotoImpression
  • Mars2008 019
  • Mars2008 019

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 72530

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband